SORPA bs. er rekin án hagnaðarsjónarmiða með umhverfi, samfélag og hagkvæmni að leiðarljósi. Frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi SORPU og að fyrirtækið stuðli að sjálfbærum gildum sem víðast í samfélaginu. Fyrirtækið hefur margvísleg tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið í gegnum starfsemi sína og er birtingarmyndin fyrst og fremst ýmis samfélagsverkefni sem SORPA hefur unnið að í gegnum tíðina og aukin nýting hráefna sem felast í úrgangi.

Í stefnumótun SORPU 2015-2020 er mörkuð stefna fyrirtækisins um hvernig mæta skuli auknum kröfum samfélagsins í úrgangsmálum, þar með talið kröfunni um að hætta urðun lífræns úrgangs fyrir 2025, stuðla að lágmörkun úrgangs og auka flokkun hans til endurvinnslu.

Stjórnkerfi

Stjórnkerfi SORPU er vottað samkvæmt ISO 9001 gæðastaðlinum, ISO 14001 umhverfisstaðli, ISO 45001 heilbrigðis- og öryggisstaðli og ÍST 85 jafnlaunastaðli. Framleiðsluvara SORPU, vistvæna eldsneytið metan, er vottað með norræna umhverfismerkinu Svaninum og gashreinsistöð SORPU er ATEX-vottuð samkvæmt kröfum í reglugerð um sprengifimt andrúmsloft á vinnustöðum (Atex User Directive). 

Vöktun umhverfisþátta

Þýðingarmiklir umhverfisþættir hafa verið skilgreindir fyrir SORPU í heild og eru svo nánar útfærðir fyrir hverja starfsstöð ásamt upplýsingum um vöktun og stýringu þeirra. Þannig eru stöðugar umbætur í umhverfis- og gæðamálum tryggðar og lögð áhersla á að lágmarka umhverfisáhrif fyrirtækisins. Í ársskýrslum SORPU má finna niðurstöður umhverfisvöktunar SORPU og grænt bókhald fyrirtækisins. 

Yfirmarkmið SORPU

Gildi SORPU, sem eru leiðarljós starfsmanna fyrirtækisins, voru ákvörðuð af öllum starfsmönnum árið 2015 á vinnustofu þar um. Gildi SORPU eru frumkvæði, traust og samheldni.

Fimm yfirmarkmið hafa verið sett fram hjá SORPU og taka þau mið af stefnum fyrirtækisins. Starfsstöðvar setja sér mælanleg markmið og aðgerðir í takt við yfirmarkmið fyrirtækisins sem eru:

  • Lágmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun SORPU
  • Lágmörkun úrgangs og aukið endurnýtingarhlutfall
  • Aukin þjónustugæði við viðskiptavini
  • Jafnrétti og vellíðan starfsmanna
  • Upplýsingaöryggi

SORPA er aðili að loftslagsyfirlýsingu fyrirtækja og Reykjavíkurborgar, sem Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, stendur fyrir. Er meðal annars unnið að verkefnum sem tengjast orkuskiptum í flutningum úrgangs og kolefnisjöfnun SORPU, sjá loftslagsmarkmið.

Velferð samfélagsins

SORPA hefur í gegnum tíðina haft frumkvæði að fjölmörgum verkefnum sem snúa að velferð samfélagsins, m.a. betri nýtingu náttúruauðlinda. Rekstur Góða hirðisins, nytjamarkaðar SORPU, er nærtækasta dæmið um slíkt verkefni þar sem gamlir munir og húsbúnaður fá nýtt líf í höndum nýrra eigenda og ágóðinn rennur til góðgerðarmála. Þá opnaði Efnismiðlun Góða hirðisins á árinu 2018 en þar fá byggingarefni og ýmis efni tengd listsköpun farveg. Markmiðið að auka endurnotkun á slíkum efnum og koma til móts við eftirspurn frá almenningi eftir slíkri þjónustu.

Aukin áhersla er á gagnsæi í ákvarðanatöku hjá SORPU og hafa fundargögn stjórnar verið birt opinberlega á vef SORPU með viðkomandi fundargerðum. Almenningur hefur því betri möguleika en áður á að átta sig á forsendum ákvarðana stjórnar.