Saga SORPU

Í lok níunda áratugar síðustu aldar var úrgangur höfuðborgarsvæðisins enn urðaður á opnum ruslahaug. Meðhöndlun úrgangs var á engan hátt í samræmi við umhverfissjónarmið dagsins í dag, þar sem lítið sem ekkert var endurnýtt og spilliefni fóru sömu leið og annar úrgangur. Til að leysa úrgangsmál íbúa höfuðborgarsvæðisins sameinuðust sveitarfélögin á svæðinu um stofnun byggðasamlagsins SORPU.

Stofnun SORPU
Aðdraganda stofnunar SORPU má rekja allt til ársins 1984. Sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem þá voru átta, settu á laggirnar sérstakan verkefnishóp sem skipaður var borgar- og bæjarverkfræðingum úr hverju sveitarfélagi. Helsta markmið hópsins var að leita framtíðarlausna í urðunarmálum fyrir svæðið í heild sinni. Niðurstöðu var skilað árið 1987, en með því var lagður grunnur að stofnun Sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins bs. sem hóf starfsemi í upphafi ársins 1988. Veigamesta verkefnið strax í upphafi var að finna heppilega staðsetningu fyrir sameiginlegan urðunarstað. Móttaka spilliefna, sem einnig var mjög aðkallandi að koma í betri farveg, hófst svo árið 1990 og formleg starfsemi SORPU bs. þann 26. apríl 1991 þegar móttöku- og flokkunarstöðin í Gufunesi var tekin í notkun.


Opnun móttökustöðvar

Frá opnun móttöku- og flokkunarstöðvar 26. apríl 1991. Á myndinni má sjá Ögmund Einarsson þáverandi framkvæmdastjóra, Lilju Þóru Stephensen klippa á borðann og Davíð Jón Ögmundsson heldur á púða.